Í haust hefur mikið verið að gera í höfnum Fjarðabyggðar bæði við landanir sjávarafla og vöruflutninga af ýmsu tagi. Vel hefur veiðst á miðunum úti fyrir Austurlandi sem leitt hefur af sér fjölgun landana í Fjarðabyggðarhöfnum. Ef uppsjávarafli er tekinn út fyrir sviga komu í september og október 6.114.825 kg af sjávarafla á land í Neskaupstað, sem er 47% meira magn en á síðasta ári og 976.503 kg á land á Fáskrúðsfirði, sem er 46% aukning frá því í fyrra. Aukning var einnig í lönduðu magni á Stöðvarfirði þessa tvo fyrstu mánuði fiskveiðiársins, en þar var heildarmagn af lönduðum afla 800.155 kg sem er 72% aukning frá fyrra ári.